Hjörtur í toppformi

Sá Hjört með Skagamönnum á ÍR vellinum í gærkveldi í fyrsta sinn í sumar.  Hann kom mér skemmtilega á óvart, virtist vera búinn að tálga af sér 10 kg og var snarpur og hraður - ofan á fína boltatækni og reynslu sem skilaði sér í góðum staðsetningum og fjölmörgum "fiskunum".  Loks notaði hann allt skapið á fremur uppbyggilegan hátt...

Heilt yfir fannst mér hann einn besti maður vallarins og einn af frekar fáum sem sýndu með óyggjandi hætti að þeir ættu heima í efstu deild.  Þótt það hafi dregið af honum átti hann enn kraft í svakalegan sprett upp völlinn á 91. mín. og skildi yngri menn eftir í rykinu.

Ef Hjörtur nær að halda sér í sama formi næsta sumar gæti hann átt a.m.k. eitt gott ár í viðbót meðal þeirra bestu.  Skagamönnum bíður stórt verkefni á næsta ári að tryggja sér sess í efstu deild og veitir ekki af hans hjálp.

P.s. verð annars að taka fram að ég skil ekki af hverju ÍR-ingar eru svo neðarlega í deildinni, þeir sýndu hörkuleik í gær og stóðu fyllilega í toppliði ÍA...

BP


mbl.is Hjörtur: Reikna ekki með að spila með ÍA í úrvalsdeildinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Maður ársins 2010?

Eins og ég hef áður ritað hef ég ekki verið sérstakur aðdáandi ÓRG í gegnum tíðina en tel rétt að viðurkenna að hann hafi einnig gert margt mjög gott á sínum forsetaferli.

Hann tók mikla áhættu þegar hann neitaði að staðfesta IceSave-lögin.  En í ljósi þeirra jákvæðu afleiðinga af ákvörðun hans sem við stöndum nú frammi fyrir er erfitt að ganga fram hjá honum sem manni ársins 2010.

Margir eru vel að því komnir að vera nr. 2 á þeim lista, t.d. björgunarsveitarmaðurinn frá Akranesi sem bjargaði litla drengnum úr sprungu á Langjökli í byrjun árs, Þorvaldur á Þorvaldseyri sem tók svo keikur á móti náttúruöflunum í sumar, Jón Gnarr sem kom, sá og sigraði í borgarstjórnarslagnum í Reykjavík og fleiri.


mbl.is Sáu að sér í Icesave-deilunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"We are European, not British!"

Alex Salmond hefur í um 20 ár verið formlegur og óformlegur leiðtogi þjóðernisflokks Skota, the Scottish National Party (SNP).  Sá flokkur hefur barist fyrir sjálfstæði Skota frá Englendingum á þeim forsendum að án formlegs aðskilnaðar læri Skotar ekki að standa á eigin fótum, axla ábyrgð á velferð sinni og hagsæld í stað þess að vera háðir því hvað þingið í London ákveður að skammta þeim hverju sinni.  SNP er mjög hugleikið hve Írum, Norðmönnum og Íslendingum hefur gengið vel frá því að þessar þjóðir hlutu sjálfstæði.

Alex Salmond var einn helsti baráttumaður fyrir því að Skotar fengu sitt eigið þing og heimastjórn árið 1997.  Hann er nú forsætisráðherra heimastjórnarinnar (Scotlands First Minister).

Ein forsenda aðskilnaðar við Englendinga er þátttaka Skota í Evrópusambandinu - þ.e. að Evrópusambandið verði sá pólitíski og efnahagslegi bakhjarl Skota sem Englendingar hafa sinnt hingað til.  Þjóðernissinnaðir Skotar segja því gjarnan: "We are European, not British".


mbl.is Skotar í bandalagi með Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lýðræði og fulltrúalýðræði

Í kjölfar bankahrunsins hafa Íslendingar tekist á um stjórnfyrirkomulag á Íslandi. 

Í áranna rás hafa flest vestræn samfélög þróað með sér útgáfu af "lýðræði" sem kallast "fulltrúalýðræði".  Það felur í sér að þjóðin kýs á nokkurra ára fresti hóp þingmanna sem eru fulltrúar fólksins í landinu.  Helstu ástæður þessa fyrirkomulags, umfram beint lýðræði, eru annars vegar að það er mikið skilvirkara og hins vegar að með ákveðinni fjarlægð fulltrúanna frá almenningi er auðveldara að ná samkomulagi um ákvarðanir sem eru heppilegastar fyrir þjóðina í heild, þrátt fyrir að þær kunni að virðast óþægilegar fyrir hluta samfélagsins á þeim tíma sem þær eru teknar.

Í flóknum vestrænum nútímasamfélögum hefur einnig skapast sú hefð að fulltrúar með líkar skoðanir hafa safnast saman í nokkur lið, stjórnmálaflokka.  Það fyrirkomulag hefur ýmsa kosti, svo sem að fulltrúarnir geta skipt með sér verkefnum og áherslum sem enn eykur á skilvirkni.  Svo er meiri líkur á að ná fram þeim málum sem þessi hópur fulltrúa hefur sameinast um - "sameinaðir stöndum við - sundraðir föllum við" o.s.frv.

Þessi hópur hefur aftur það hlutverk að koma sér saman um heppilegustu leiðina til að stjórna landinu.  Allir fulltrúarnir hafa rétt á að hafa eigin skoðun og leggja fram tillögur en síðan er það meirihluti fulltrúanna sem ræður.  Þetta fyrirkomulag krefst mikils félagslegs þroska af þeim einstaklingum sem veljast til að vera fulltrúar þjóðarinnar.  Það er eðlilegasti hlutur að tekist sé á um lausnir og ákvarðanir en að lokum verða fulltrúarnir að sameinast um þá ákvörðun sem meirihlutinn tekur.

Í hópíþróttum er eðlilegt og jafnvel æskilegt að tekist sé á um leikaðferðir og leikmannaval á æfingum og í búningsherbergjum.  En þegar inn á völlinn er komið er það ekki vænlegt til árangurs og þeim leikmönnum sem ekki fylgja leikskipulaginu, þjálfara og fyrirliða er því er strax skipt út.

Til að þjóðin geti áhyggjulaust stundað sitt daglega líf þarf hún að skilja eftir hvaða leikreglum fulltrúarnir sem hún valdi til að stýra landsmálum vinna eftir.  Eru það leikreglur einstaklingsíþrótta eða hópíþrótta?  Í flestum íslenskum stjórnmálaflokkum liggur þetta ljóst fyrir en ekki hjá VG og á meðan svo er fyrirkomið að óvissa ríkir um félagslegan þroska innan annars stjórnarflokksins getur þjóðin ekki verið áhyggjulaus.


mbl.is „Innan múra valdsins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15 þúsund heimili þurfa að borga!

Það gleymist í þessari umfjöllun að einhverjir þurfa að borga brúsann.

Stór hluti fjölskyldna landsins fá litla eða enga leiðréttingu á stökkbreyttum lánum en fær að borga brúsann í gegnum stöðugt hækkandi skatta og skerðingu á þjónustu.

Þeim sem skulduðu "hóflega" mikið í húsnæði sínu og hafa misst all það stóran hluta af því fé sem lagt var í húsnæðiskaup 2004-2008 er refsað harkalega - aftur!

 


mbl.is 60 þúsund heimili njóta góðs af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afrekaskrá Svandísar í ráðherrastól

Íslenskufræðingurinn Svandís Svavarsdóttir hefur óneitanlega svolítið sérstakan ráðherraferil að baki.  Alla jafna heyrist ekki mikið í henni en af og til gýs hún upp með miklum látum.  Ber þar helst að nefna nokkur hitamál: 

1. Afsalaði Íslendingum kolefnislosunarkvóta að andvirði tuga ef ekki hundruða milljarða sem Íslendingar höfðu barist fyrir árum saman á grundvelli svokallaðs "íslensks ákvæðis" í Kyoto-samkomulaginu - þvert á álit sérfræðinga og fagaðila hér á landi

2. Úrskurðaði að línuframkvæmdir á Reykjanesi skuli í sameiginlegt mat - þvert á álit Skipulagsstofnunar og annarra fagaðila, enda lítil sammögnunaráhrif.

3. Setti stífustu reglugerð heims fyrir losun á brennisteinsvetni frá jarðvarmavirkjunum, ársmeðaltal undir 5 mg/m3 og dagsmeðaltal undir 50 mg/m3 (álíka stíft og í nágrenni Napa Valley), sem setur hagkvæmni margra góðra virkjanakosta í uppnám - þvert á álit Umhverfisstofnunar, World Health Organisation (WHO) og annarra sérfræðinga sem lögðu til að þessi mörk væru 150 mg/m3 (og þótti stíft).

4. Berst á móti því að Magma Energy fái að bjarga HS Orku og ber við ólögmæti kaupsamninga - Þvert á álit tveggja nefnda og fjölda lögfræðinga

5. Hafnaði að staðfesta aðalskipulagsbreytingar í Flóahreppi og Skeiða og Gnúpverjahreppi þar sem framkvæmdaraðili hafði aðstoðað sveitarfélögin við að greiða útlagðan kostnað vegna breytinganna, en fordæmið stöðvaði stórframkvæmdir eins og virkjanir, vegaframkvæmdir o.fl. um allt land - þvert á álit dómstóla.

...og svo var íslenskufræðingurinn Svandís ein þeirra sem hneykslaðist á því að dýralæknir hafi verið gerður að fjármálaráðherra!


mbl.is Svandís svarar Samtökum atvinnulífsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ráðist á ungt menntað barnafólk!

Langskólagengið barnafólk á aldrinum 30-50 ára, t.t.l. nýlega komið út á vinnumarkaðinn er þjóðfélagshópur sem kemur mjög illa út úr kreppunni án þess að það komi oft fram í umræðunni.  Þessi hópur kemur seint inn á vinnumarkaðinn en þiggur í staðin hærri tekjur.  Í krafti væntinga um góðar tekjur fjárfesti þessi hópur í húsnæði og bílum á lánum.

- Lækkun á fasteignaverði og hækkun fasteignalána hefur þurrkað upp allan sparnað sem fólk hafði safnað í útborgun og jafn vel gott betur.  Tekjuháar fjölskyldur með skuldir langt umfram eignir fær enga skuldaleiðréttingu heldur mun þurfa að berjast við háar afborganir það sem eftir er af starfsæfinni.

- Veik króna og hækkaður virðisaukaskattur kemur hart niður á barnafjölskyldum sem þurfa að reiða sig á innfluttar bleyjur, barnamat, barnaföt og skólavörur.

- Hækkun á tekjusköttum bitnar harðast á hátekju-launafólki.

- Aftenging fæðingarorlofsgreiðslna gerir skuldsettum menntuðum hjónum erfitt að eignast börn.

- Aukin tekjutenging bóta, svo sem vaxtabóta og barnabóta, bitnar harðast á hálaunuðu menntafólki sem vinnur baki brotnu til að eiga fyrir ört hækkandi reikningum.

- Hækkun gjalda á ökuteæki og eldsneyti kemur harðast niður á barnafólki sem þarf á stærri ökutækjum að halda.

Stjórnvöld lögðu um 100-200 milljarða króna til að verja sparnað miðaldra og fullorðinna Íslendinga í peningamarkaðssjóðum en þegar húsnæðis- og bílalán barnafjölskylda hækkuð var lítið gert.  Þegar dómur féll um ólögmæti gengistryggðra lána - sem flest voru í eigu barnafjölskyldna á aldrinum 30-50 ára - var alltí einu orðið "réttlætismál" að tryggja að þessi hópur greiddi extra háa vexti í staðin svo bankakerfið tapaði ekki.

Svona fara núverandi (miðaldra) stjórnvöld með komandi kynslóðir! 


mbl.is Fæðingarorlof skert á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

og Íslendingar eiga í norskri olíuvinnslu

Órólega deildin í VG sem kúgar ríkisstjórnina hvað eftir annað um þessar mundir hefur mikinn samhljóm með vinstri sinnuðum leiðtogum í Mið- og Suður Ameríku.

Það að "vinda ofan af einkavæðingu" er í raun að þjóðnýta eignir einstaklinga, líkt og Kastró, Hugo Chaves, Evo Morales og fleiri hafa talað fyrir.

En VG reyna gjarnan að villa fyrir um uppruna hugmyndafræðinnar með því að vísa til Noregs.

Olíuvinnsla er Norðmönnum jafnvel mikilvægari en jarðhitanýting okkur Íslendingum.  Norska ríkið á olíuauðlindirnar í norskri lögsögu en leigir olíuvinnslufyrirtækjum nýtingarréttinn til áratuga.

Hverjir eiga norsku olíuvinnslufyrirtækin?  Statoil er stærst og þótt norska ríkið eigi rúmlega helmingshlut er það skráð á hlutabréfamarkað og rekið eins og almenningshlutafélag.  Önnur olíuvinnslufélög eru alþjóðlega, s.s. Shell, BP, Total, Chevron o.s.frv.

Á góðærisárunum fjárfestu bæði íslensku fjarfestingafélögin Atorka og Norvík í norskum olíuvinnslufyrirtækjum.

Norðmenn sjá marga kosti við að fá alþjóðleg fyrirtæki að olíuvinnslu - þekkingu, fjármögnun, áhættustjórnun - ólíkt VG.


Sammála - Nýjan sjávarútvegsráðherra takk!

Alveg rétt mat hjá Jóni að samningaviðræður við EU séu ekki líklegar til að bera árangur - ekki með hann í brúnni.

Í þennan stól þarf nútímalega manneskju sem hefur alþjóðlegt sjálfstraust, trúir á sjálfan sig, verkefnið og framtíð Íslands.  Svo þarf að vera verulegur töggur í viðkomandi, hann/hún þarf að hafa kjark til að standa upp og tala fyrir sínum málstað þótt á móti blási.

Hvernig væri að fá Ragnheiði Ríkharðsdóttur í hlutverkið?


mbl.is Jón vill hætta viðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að vinda ofan af "einkavæðingu" í sjávarútvegi næst?

Það jákvæða við ákvörðun ríkisstjórnarinnar í dag er að reyna skal að marka heilsteypta stefnu um eignarhald á auðlindum og fyrirtækjum sem framleiða, flytja og dreifa raforku.  Ekki bara klístra einum pólitískum plástri á málið af því að fyrirtækið heitir Magma og er frá Kanada.

Orkugeirinn er í heildina mörg hundruð milljarða króna virði svo það er stórmál ef ríkið ætlar sér að eiga hann til lengdar.  Ólíklegt er t.d. að orkufyrirtæki í opinberri eigu hafi bolmagn til að fjármagna frekari orkuframleiðsluverkefni á næstu árum, sérstaklega ef ríkið þarf að leggja tugi milljarða í að leysa til sín HS orku og endurfjármagna síðan fyrirtækið í framhaldinu.

Einnig þarf að skoða vandlega hvort og þá hversu stóran hlut er ásættanlegt að einkaaðilar eigi í orkuframleiðslufyrirtækjum?

Í framhaldinu hljóta hins vegar að vakna upp spurningar um stóra samhengið, þ.e. eignarhald í öllum auðlindagreinum.  Er t.d. ásættanlegt að útlendingar hagnist á að eiga hlut í sjávarútvegsfyrirtækjum á Íslandi?

Jafnvel gætu slíkar spurningar vaknað um eignarhald í landbúnaði.  Nú eru t.d. dæmi um að jarðir sem búa yfir jarðhita og vatnsréttindum séu í eigu útlendra auðjöfra - ætlar ríkið að leysa þær til sín?

Það verður forvitnilegt að fylgjast með þróun þessa máls á næstu mánuðum.


mbl.is Vill vinda ofan af Magma máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband