Lýðræði og fulltrúalýðræði

Í kjölfar bankahrunsins hafa Íslendingar tekist á um stjórnfyrirkomulag á Íslandi. 

Í áranna rás hafa flest vestræn samfélög þróað með sér útgáfu af "lýðræði" sem kallast "fulltrúalýðræði".  Það felur í sér að þjóðin kýs á nokkurra ára fresti hóp þingmanna sem eru fulltrúar fólksins í landinu.  Helstu ástæður þessa fyrirkomulags, umfram beint lýðræði, eru annars vegar að það er mikið skilvirkara og hins vegar að með ákveðinni fjarlægð fulltrúanna frá almenningi er auðveldara að ná samkomulagi um ákvarðanir sem eru heppilegastar fyrir þjóðina í heild, þrátt fyrir að þær kunni að virðast óþægilegar fyrir hluta samfélagsins á þeim tíma sem þær eru teknar.

Í flóknum vestrænum nútímasamfélögum hefur einnig skapast sú hefð að fulltrúar með líkar skoðanir hafa safnast saman í nokkur lið, stjórnmálaflokka.  Það fyrirkomulag hefur ýmsa kosti, svo sem að fulltrúarnir geta skipt með sér verkefnum og áherslum sem enn eykur á skilvirkni.  Svo er meiri líkur á að ná fram þeim málum sem þessi hópur fulltrúa hefur sameinast um - "sameinaðir stöndum við - sundraðir föllum við" o.s.frv.

Þessi hópur hefur aftur það hlutverk að koma sér saman um heppilegustu leiðina til að stjórna landinu.  Allir fulltrúarnir hafa rétt á að hafa eigin skoðun og leggja fram tillögur en síðan er það meirihluti fulltrúanna sem ræður.  Þetta fyrirkomulag krefst mikils félagslegs þroska af þeim einstaklingum sem veljast til að vera fulltrúar þjóðarinnar.  Það er eðlilegasti hlutur að tekist sé á um lausnir og ákvarðanir en að lokum verða fulltrúarnir að sameinast um þá ákvörðun sem meirihlutinn tekur.

Í hópíþróttum er eðlilegt og jafnvel æskilegt að tekist sé á um leikaðferðir og leikmannaval á æfingum og í búningsherbergjum.  En þegar inn á völlinn er komið er það ekki vænlegt til árangurs og þeim leikmönnum sem ekki fylgja leikskipulaginu, þjálfara og fyrirliða er því er strax skipt út.

Til að þjóðin geti áhyggjulaust stundað sitt daglega líf þarf hún að skilja eftir hvaða leikreglum fulltrúarnir sem hún valdi til að stýra landsmálum vinna eftir.  Eru það leikreglur einstaklingsíþrótta eða hópíþrótta?  Í flestum íslenskum stjórnmálaflokkum liggur þetta ljóst fyrir en ekki hjá VG og á meðan svo er fyrirkomið að óvissa ríkir um félagslegan þroska innan annars stjórnarflokksins getur þjóðin ekki verið áhyggjulaus.


mbl.is „Innan múra valdsins“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband