Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
6.4.2009 | 12:38
Ekki heil brú í þessari frétt!
Með þessari aðferðafræði fæst eflaust út að öll fyrirtæki á Íslandi hefi greitt ofurlaun á síðasta ári:
1. snúum fyrst launagreiðslum úr krónum í evrur á gengi 2008,
2. snúum svo launagreiðslunum úr evrum í krónur á genginu 2009
3. og viti menn, launin hafa tvöfaldast!
Magnað...
Meðalárslaun tíu milljónir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.4.2009 | 12:26
Sértækar ívilnanir til iðnaðar - eitthvað nýtt?
Nokkur dæmi úr sögunni:
- Sjávarútvegur: Sjómannaafsláttur, niðurgreidd hafnaraðstaða, byggðakvótar, greiðslur Atvinnutryggingasjóðs til fiskvinnslufyrirtækja vegna vinnslustöðunar af völdum hráefnisskorts o.s.frv.
- Upplýsingatækniiðnarður: Ríkisstyrktir ljósleiðarar til og frá landinu
- Styrkir til landbúnaðar: Sundurliða ekki nánar!
- og svo mætti eflaust lengi halda áfram
Einhvern vegin finnst mér fólk ekki setja hlutina í rétt samhengi. Á móti ákveðnum ívilnunum er líka farið fram á meiri skuldbindingar en gengur og gerist, bæði hvað varðar landfræðilega staðsetningu starfseminnar, samfélagslega ábyrgð og fleira.
Álfyrirtæki eru t.d. krafin um óuppsegjanlega orkukaupasamninga áratugi fram í tímann. Þegar um stór og flókin verkefni er að ræða þarf oft að horfa aðeins öðru vísi á málin.
Alfarið á móti álverssamningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.11.2008 | 23:35
Á Landsvirkjun sök á kreppunni?
Þessi sjálfásökun kom skyndilega yfir mig s.l. mánudagskvöld þegar ég horfði á útsendingu frá borgarafundi í Háskólabíói. Í umræðunum voru einkum þrjár krítístkar spurningar sem stóðu upp úr:
1. Peningastefnan - Af hverju peningamálastefna sem lokkaði erlend lán inn í landið?
Í upphafi framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál var hamrað á því í fjölmiðlum og á þingi að þensluáhrifin af þessum fjárfestingum upp á samtals 200 milljarða króna myndu valda óðaverðbólgu og því yrðu stjórnvöld að berja niður þennsluáhrif strax í fæðingu. Meðal stjórnvalda var háir stýrivextir Seðlabankans. Afleiðing hinna háu stýrivaxta var mikill vaxtamunur við erlend ríki og gífurlegt innflæði jöklabréfa upp á mörg hundruð milljarða sem skilaði sér í ódýrum lánum til almennings og íslenskra fyrirtækja til framkvæmda og fjárfestinga. Allt þjóðfélagið fór á flug, sumir í útrás, aðrir byggðu húsnæði. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fóru í samkeppni og allt í einu varð gífurlegt offramboð á byggingarlandi. Ríkið gleymdi sér einnig í æðinu og keyrði á móti peningamálastefnunni með því að hækka lán Íbúðarlánasjóðs, réðst í tónlistarhús, spítalabyggingu, jarðgöng í öllum landsfjórðungum o.s.frv. En hver urðu þensluáhrifin af Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaáli? Erlendur tækjabúnaður, erlendir verktakar og að hluta erlendir hönnuðir. Vissulega fjármagnað af erlendu fjármagni en ég myndi giska á að innan við 25%, 50 milljarðar, af framkvæmdafénu hafi í raun skilað sér inn í íslenska hagkerfið. Á sama tíma hrúguðust erlendar skuldir þjóðarinnar upp um hundruði milljarða vegna mikils vaxtamunar við útlönd. Var Seðlabankinn að berjast við réttan óvin allan þennan tíma með háum stýrivöxum?
2. Fjölmiðlarnir - Af hverju kom engin frétt um að fjármálakerfið væri of stórt?
Um fjölmiðla þarf fátt að fjölyrða. Orkufyrirtækin og þá sérstaklega Landsvirkjun hefur þurft að vera á tánum við að svara ágengum spurningum fréttamanna og oftar en ekki leiðrétta rangfærslur. Ríkisfjölmiðlarnir fóru þar fremstir, t.d. Spegillinn og Spaugstofan sem slepptu engu tækifæri með að dylgja um óheiðarleika Landsvirkjunar. Á meðan mærðu fréttamenn uppgang fjármálakerfisins, ris hlutabréfavístölunnar, kaup Baugs á nýjum fatakeðjum o.s.frv. Orkuverkefni voru í lagi ef þau hétu "útrás" en ef þau voru á hinu gróðursnauða Íslandi voru þau "náttúruspjöll".
3. Mótmælendur - af hverju var ekki mótmælt áður en allt var farið um koll?
Fólk undrar sig á því hvaðan mótmælendur á Austurvelli hvern laugardag koma. Ég undrast það ekki, ég hef séð hinn almenna íslenska mótmælanda áður. Fyrir nokkrum árum gekk hann niður Laugarveginn með Ómari Ragnarssyni og mótmælti því að til stæði að fylla á Hálslón (jafnvel þó svo að nær öllum framkvæmdum væri lokið og búið að fjárfesta fyrir um 200 milljarða). Enn áður mótmælti hann veru bandaríska hersins á Íslandi og inngöngu í Nató. Það hafa alltaf verið mótmælendur á Íslandi - spurningin er hins vegar hvers vegna eru þeir núna fyrst að mótmæla peningamálastefnu stjórnvalda og ofþenslu bankakerfisins? Fyrir aðeins einu ári síðan lýstu forsvarsmenn mótmælenda því fjálglega yfir að fjárfestingar á vatnsorkuverum og áliðju væru "gamaldags" en nútíminn væri Eve Online og fjármálageirinn. Íslendingar voru svo ríkir að þeir þurftu ekki að fórna náttúruperlum landsins fyrir 40 ára orkusölusamninga við álfyrirtæki. Ég er ekki frá því að mótmælendur Íslands hafi jafnvel misst veruleikaskynið á tímabili.
Af ofangreindu mætti ætla að virkjanaáform Landsvirkjunar undanfarin ár hafi kastað glýju á augu stjórnmálamanna, fjölmiðlanna og hins almenna íslenska mótmælanda sem kostaði það að hinn raunverulegi vandi læddist upp að þjóðfélaginu og steypti því um koll án þess að nokkur ætti sér ills von.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 1.12.2008 kl. 00:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.11.2008 | 15:06
Kveðja til Ómars Ragnarssonar
Ómar Ragnarsson bloggaði í síðustu viku um heimsókn sína á borstað á Kröflusvæðinu. Eftirfarandi er svar við bloggi Ómars:
Sæll Ómar
Ég rétt missti af þér í síðustu viku en hefði gjarnan vilja kynna fyrir þér hvað þarna er í gangi. Þú varst mættur á borplan holu IDDP-1, fyrstu holunnar í íslenska djúpborunarverkefninu, en þú hefur margoft hvatt til þess verkefnis og sagst því fylgjandi. Nú í nóvember stendur til að bora niður á um 800 m dýpi en í vor kemur stærri bor á svæðið til að bora niður á allt að 4500 m dýpi í leit að orkuríkum vökva við yfirmarksástand, T>380°C og P>220 bör. Að sjálfsögðu er upplýstur borinn áberandi í vetrarhúminu en á þessum árstíma eru fremur fáir ferðamenn á ferli og miðað er við að borarnir trufli sem fæsta. Að framkvæmdum loknum mun hins vegar eftir standa lítið hús yfir holulokana sem ætti ekki að trufla venjulegt fólk.
Holan er staðsett á litlum skika á miðju Kröflusvæðinu, þar sem orkan er væntanlega hvað mest, og tekinn hefur verið frá sem orkuvinnslusvæði í skipulagi. Þaðan stendur til að stefnubora nokkrar holur til að hámarka orkuvinnslu með lágmarks raski. Svæðið sjálft er löngu raskað enda gengu fyrstu hugmyndir í upphafi 8. áratugarins útá að vinna gufu fyrir fyrstu áfanga Kröfluvirkjunar á þessu svæði þar til Kröflueldar hófust og vökvinn á þessum hluta mengaðist af kvikugösum. Á þessum borteig eru fyrir holur KG-4 (1975) og KG-25 (1990) og hafa rekstraraðilar Kröflustöðvar ekki orðið varir við að þær holur trufli þá sem eiga leið um svæðið.
Að sjálfsögðu eru háhitaholur sem þessi ekki boraðar án þess að hafa farið í gegnum matsferil, eins og lög kveða á um. Aðdróttanir um annað eru þér ekki sæmandi sem einum af virtustu fréttamönnum landsins. Boranir á þessum reit fóru fyrst í gegnum mat á umhverfisáhrifum 40 MW stækkunar Kröfluvirkjunar á árunum 1999-2001. Borun djúpborunarholunnar var síðan sérstaklega tilkynnt til Skipulagsstofnunar fyrr á þessu ári og úrskurði Skipulagsstofnun, að fengnu áliti lögformlegra umsagnaraðila, og reyndar mun fleiri aðila, að framkvæmdin skuli ekki háð ítarlegu umhverfismati.
Sá reitur sem um ræðir er sunnarlega á svokölluðum Vítismóum, uppi á sléttunni norðan við Kröflustöð, rétt suðvestan við Víti, um 2 km austan við Leirhnjúk og nokkrum km sunnan við það svæði sem mér skylst að geimfarar hafi æft sig. Um svæðið liggur malbikaður vegur sem um 100.000 ferðamenn aka árlega upp að bílastæðum við Víti og göngustígnum að Leirhnjúk (borplan holu KG-8) og því undarlegt að bera saman við Öskju. Þetta svæði hefur hingað til verið flokkað sem hluti af vinnslusvæði núverandi Kröflustöðvar en ekki undir það sem kallað hefur verið Leirhnjúkssvæði, sbr. umfjöllun í hvítbók iðnaðarráðuneytis (1994), í rammaáætlun og víðar, en þá er miðað við að leggja veg að Leirhnjúk og bora á nokkrum stöðum við fjallið sjálft.
Ég vona að þessi stutti pistill skýri hvað fyrir augu bar.
Bestu kveðjur, Bjarni Pálsson,
verkefnisstjóri djúpborunarverkefnisins fyrir Landsvirkjun.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.11.2008 kl. 12:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hér verður að stíga varlega til jarðar! Alcoa hefur staðið í samningaviðræðum við orkufyrirtæki um kaup á 400 MW af raforku frá jarðhitasvæðunum á NA-landi fyrir 250.000 tonna álframleiðslu á Húsavík. Þeir vilja hins vegar gjarnan meta strax áhrif þess að álverið verði hugsanlega í framtíðinni stækkað í 340.000 tonn, sem er í sjálfu sér mjög heiðarlegt. NSÍ og Landvernd reyna nú að þeyta ryki í augu umsagnaraðila og gera umhverfismat Alcoa tortryggilegt með kröfum sínum, rétt eins og þeir séu að gefa til kynna að einhverjar leynilegar samningaviðræður séu í gangi um um aðrar virkjanir. Svo er ekki. Hins vegar er ljóst að Íslendingar eiga ýmsa virkjana kosti sem kemur til greina að nýta í framtíðinni og nú stendur yfir vinna við að meta verndargildi og nýtingareiginleika þeirra svæða með það að markmiði að taka ákvörðun um hvaða svæði er hægt að nýta og hvaða svæði sé ásættanlegt að nýta. Þessi vinna er unnin undir formerkjum rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðhita. Kröfur NSÍ og Landverndar eru því í hróplegu ósamræmi við þá vinnu og á engan hátt settar fram til að auka líkur á faglegu umhverfismati fyrir álverið sjálft sem er jú aðalumfjöllunaratriðið hér.
Alcoa geri grein fyrir raforkuöflun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |