Kveðja til Ómars Ragnarssonar

Ómar Ragnarsson bloggaði í síðustu viku um heimsókn sína á borstað á Kröflusvæðinu.  Eftirfarandi er svar við bloggi Ómars: 

 

Sæll Ómar

Ég rétt missti af þér í síðustu viku en hefði gjarnan vilja kynna fyrir þér hvað þarna er í gangi.  Þú varst mættur á borplan holu IDDP-1, fyrstu holunnar í íslenska djúpborunarverkefninu, en þú hefur margoft hvatt til þess verkefnis og sagst því fylgjandi.  Nú í nóvember stendur til að bora niður á um 800 m dýpi en í vor kemur stærri bor á svæðið til að bora niður á allt að 4500 m dýpi í leit að orkuríkum vökva við yfirmarksástand, T>380°C og P>220 bör.  Að sjálfsögðu er upplýstur borinn áberandi í vetrarhúminu en á þessum árstíma eru fremur fáir ferðamenn á ferli og miðað er við að borarnir trufli sem fæsta.  Að framkvæmdum loknum mun hins vegar eftir standa lítið hús yfir holulokana sem ætti ekki að trufla venjulegt fólk. 

Holan er staðsett á litlum skika á miðju Kröflusvæðinu, þar sem orkan er væntanlega hvað mest, og tekinn hefur verið frá sem orkuvinnslusvæði í skipulagi.  Þaðan stendur til að stefnubora nokkrar holur til að hámarka orkuvinnslu með lágmarks raski. Svæðið sjálft er löngu raskað enda gengu fyrstu hugmyndir í upphafi 8. áratugarins útá að vinna gufu fyrir fyrstu áfanga Kröfluvirkjunar á þessu svæði þar til Kröflueldar hófust og vökvinn á þessum hluta mengaðist af kvikugösum.  Á þessum borteig eru fyrir holur KG-4 (1975) og KG-25 (1990) og hafa rekstraraðilar Kröflustöðvar ekki orðið varir við að þær holur trufli þá sem eiga leið um svæðið.

Að sjálfsögðu eru háhitaholur sem þessi ekki boraðar án þess að hafa farið í gegnum matsferil, eins og lög kveða á um.  Aðdróttanir um annað eru þér ekki sæmandi sem einum af virtustu fréttamönnum landsins.  Boranir á þessum reit fóru fyrst í gegnum mat á umhverfisáhrifum 40 MW stækkunar Kröfluvirkjunar á árunum 1999-2001.  Borun djúpborunarholunnar var síðan sérstaklega tilkynnt til Skipulagsstofnunar fyrr á þessu ári og úrskurði Skipulagsstofnun, að fengnu áliti lögformlegra umsagnaraðila, og reyndar mun fleiri aðila, að framkvæmdin skuli ekki háð ítarlegu umhverfismati.

Sá reitur sem um ræðir er sunnarlega á svokölluðum Vítismóum, uppi á sléttunni norðan við Kröflustöð, rétt suðvestan við Víti, um 2 km austan við Leirhnjúk og nokkrum km sunnan við það svæði sem mér skylst að geimfarar hafi æft sig.  Um svæðið liggur malbikaður vegur sem um 100.000 ferðamenn aka árlega upp að bílastæðum við Víti og göngustígnum að Leirhnjúk (borplan holu KG-8) og því undarlegt að bera saman við Öskju.  Þetta svæði hefur hingað til verið flokkað sem hluti af vinnslusvæði núverandi Kröflustöðvar en ekki undir það sem kallað hefur verið Leirhnjúkssvæði, sbr. umfjöllun í hvítbók iðnaðarráðuneytis (1994), í rammaáætlun og víðar, en þá er miðað við að leggja veg að Leirhnjúk og bora á nokkrum stöðum við fjallið sjálft.

Ég vona að þessi stutti pistill skýri hvað fyrir augu bar.

Bestu kveðjur, Bjarni Pálsson,

verkefnisstjóri djúpborunarverkefnisins fyrir Landsvirkjun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband