Á Landsvirkjun sök á kreppunni?

Þessi sjálfásökun kom skyndilega yfir mig s.l. mánudagskvöld þegar ég horfði á útsendingu frá borgarafundi í Háskólabíói.  Í umræðunum voru einkum þrjár krítístkar spurningar sem stóðu upp úr:

1. Peningastefnan - Af hverju peningamálastefna sem lokkaði erlend lán inn í landið?

Í upphafi framkvæmda við Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaál var hamrað á því í fjölmiðlum og á þingi að þensluáhrifin af þessum fjárfestingum upp á samtals 200 milljarða króna myndu valda óðaverðbólgu og því yrðu stjórnvöld að berja niður þennsluáhrif strax í fæðingu.  Meðal stjórnvalda var háir stýrivextir Seðlabankans.  Afleiðing hinna háu stýrivaxta var mikill vaxtamunur við erlend ríki og gífurlegt innflæði jöklabréfa upp á mörg hundruð milljarða sem skilaði sér í ódýrum lánum til almennings og íslenskra fyrirtækja til framkvæmda og fjárfestinga.  Allt þjóðfélagið fór á flug, sumir í útrás, aðrir byggðu húsnæði.  Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu fóru í samkeppni og allt í einu varð gífurlegt offramboð á byggingarlandi.  Ríkið gleymdi sér einnig í æðinu og keyrði á móti peningamálastefnunni með því að hækka lán Íbúðarlánasjóðs, réðst í tónlistarhús, spítalabyggingu, jarðgöng í öllum landsfjórðungum o.s.frv.  En hver urðu þensluáhrifin af Kárahnjúkavirkjun og Fjarðaáli?  Erlendur tækjabúnaður, erlendir verktakar og að hluta erlendir hönnuðir.  Vissulega fjármagnað af erlendu fjármagni en ég myndi giska á að innan við 25%, 50 milljarðar, af framkvæmdafénu hafi í raun skilað sér inn í íslenska hagkerfið.  Á sama tíma hrúguðust erlendar skuldir þjóðarinnar upp um hundruði  milljarða vegna mikils vaxtamunar við útlönd.  Var Seðlabankinn að berjast við réttan óvin allan þennan tíma með háum stýrivöxum?

2. Fjölmiðlarnir - Af hverju kom engin frétt um að fjármálakerfið væri of stórt?

Um fjölmiðla þarf fátt að fjölyrða.  Orkufyrirtækin og þá sérstaklega Landsvirkjun hefur þurft að vera á tánum við að svara ágengum spurningum fréttamanna og oftar en ekki leiðrétta rangfærslur.  Ríkisfjölmiðlarnir fóru þar fremstir, t.d. Spegillinn og Spaugstofan sem slepptu engu tækifæri með að dylgja um óheiðarleika Landsvirkjunar.  Á meðan mærðu fréttamenn uppgang fjármálakerfisins, ris hlutabréfavístölunnar, kaup Baugs á nýjum fatakeðjum o.s.frv.  Orkuverkefni voru í lagi ef þau hétu "útrás" en ef þau voru á hinu gróðursnauða Íslandi voru þau "náttúruspjöll".

3. Mótmælendur - af hverju var ekki mótmælt áður en allt var farið um koll?

Fólk undrar sig á því hvaðan mótmælendur á Austurvelli hvern laugardag koma.  Ég undrast það ekki, ég hef séð hinn almenna íslenska mótmælanda áður.  Fyrir nokkrum árum gekk hann niður Laugarveginn með Ómari Ragnarssyni og mótmælti því að til stæði að fylla á Hálslón (jafnvel þó svo að nær öllum framkvæmdum væri lokið og búið að fjárfesta fyrir um 200 milljarða).  Enn áður mótmælti hann veru bandaríska hersins á Íslandi og inngöngu í Nató.  Það hafa alltaf verið mótmælendur á Íslandi - spurningin er hins vegar hvers vegna eru þeir núna fyrst að mótmæla peningamálastefnu stjórnvalda og ofþenslu bankakerfisins?  Fyrir aðeins einu ári síðan lýstu forsvarsmenn mótmælenda því fjálglega yfir að fjárfestingar á vatnsorkuverum og áliðju væru "gamaldags" en nútíminn væri Eve Online og fjármálageirinn.  Íslendingar voru svo ríkir að þeir þurftu ekki að fórna náttúruperlum landsins fyrir 40 ára orkusölusamninga við álfyrirtæki.  Ég er ekki frá því að mótmælendur Íslands hafi jafnvel misst veruleikaskynið á tímabili.

Af ofangreindu mætti ætla að virkjanaáform Landsvirkjunar undanfarin ár hafi kastað glýju á augu stjórnmálamanna, fjölmiðlanna og hins almenna íslenska mótmælanda sem kostaði það að hinn raunverulegi vandi læddist upp að þjóðfélaginu og steypti því um koll án þess að nokkur ætti sér ills von. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Katrín Linda Óskarsdóttir

Landsvirkjun á örugglega sinn þátt í þessu ....  ekki vegna virkjanaframkvæmda sem slíkra, heldur óhófs og bruðls í rekstri, eins og flest öll fyrirtæki á Íslandi síðustu árin

Katrín Linda Óskarsdóttir, 30.11.2008 kl. 23:40

2 Smámynd: Bjarni Pálsson

Það er nú svo merkilegt með bókhald Landsvirkjunar að rekstrarkostnaður vegur ákaflega lítið í uppgjöri félagsins, er alla jafna um 20-25% af tekjum, en þyngst vega afborganir á lánum og afskriftir mannvirkja og vísa ég þá til síðustu ársskýrslna.  Landsvirkjun hefur færri starfsmenn en flest sambærileg orkufyrirtæki og greiðir laun sem taka mið af töxtum hjá ríkinu.  Því er hæpið að tala um óhóf og bruðl.

Þess má geta að Landsvirkjun tók að gera um í bandaríkjadölum um síðustu áramót, enda meirihluti tekna og skulda í þeim gjaldmiðli, og því lítur bókhald félagsins mun eðlilegar út en bókhald flestra annarra íslenskra orkufyrirtækja um þessar mundir.

Bjarni Pálsson, 1.12.2008 kl. 00:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband